Talið niður í myrkrið: Listafólk Myrkra músíkdaga 2025 kynnt
Á Jónsmessunótt, 24. júní, komu aðstandendur og listafólk tónlistarhátíðarinnar Myrkra Músíkdaga saman í Skerjafirði til þess að fagna því að nú tekur daginn að styttast og þar með styttist í næstu hátíð. Myrkir Músíkdagar eru ein elsta tónlistarhátíð Íslands og þekkt langt út fyrir landsteinana sem fremsta samtímatónlistarhátíð landsins.
Myrkir Músíkdagar 2025 verða haldnir 24.-26. janúar 2025 í 44. skiptið.
Viðburðurinn var haldinn við vinnustofu John McCowen en hann lék eigin verk sem hljómuðu undurvel í bjartri Jónsmessunæturkyrrðinni og stuttu eftir kynnti listráð Myrkra Músíkdaga inn listafólk hátíðarinnar.
Líkt og fyrri ár setja samstarfsaðilar hátíðarinnar svip sinn á hana, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput og Kammersveitin eiga þar sinn fasta sess þar sem frumflutningur íslenskra verka er í forgrunni. Tónleikar sönghópsins Cantoque Ensemble í Hallgrímskirkju verða á sínum stað í dagskránni og verða helgaðir kórverkum Hjálmars H. Ragnarssonar. Hópurinn mun m.a. frumflytja nýtt verk Hjálmars sem samið er sérstaklega í tilefni af tónleikum hópsins á Myrkum músíkdögum.
Undanfarin ár hefur hátíðin lagt áherslu á samstarf við skóla og menntastofnanir, enda hátíð sem þessi kjörinn vettvangur til að skapa reynslu fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á listabrautinni. Hópar frá Listaháskóla Íslands, Menntaskólanum í Tónlist og Skólalúðrahljómsveitum Reykjavíkur munu taka þátt en auk þess verður boðið upp á hljóðbað fyrir fjölskyldur í samstarfi við fjölskyldudagskrá Hörpu.
Auk þessara föstu liða býður hátíðin upp á fjölda annarra fjölbreyttra viðburða, má þar nefna einleikstónleika John McCowen, öróperur Elínar Gunnlaugsdóttur og tónleikagjörning Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur.
Harpa verður miðstöð hátíðarinnar og mun hátíðin skapa sannkallaða hátíðarstemningu í húsinu. Nokkuð verður um ókeypis tónleika og viðburði í opnum rýmum Hörpu og ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi. Heildardagskrá verður kynnt í september um leið og miðasala hefst.
Myrkir músíkdagar eru haldnir af Tónskáldafélagi Íslands í samstarfi við Tónlistarmiðstöð, Tónlistarborgina Reykjavík, Íslandsstofu, Tónleikahúsið Hörpu, Hallgrímskirkju og Norræna húsið.