Hvernig fæ ég lögin mín inn á lagalista Iceland Music?

9
.  
December
 
2024

Lagalistar Iceland music á Spotify og Apple Music

Tilgangur Tónlistarmiðstöðvar er meðal annars að skapa sóknarfæri fyrir rétthafa íslenskrar tónlistar innanlands sem utan.

Vörumerkið Iceland Music er enska heitið yfir Tónlistarmiðstöð og er notað til að koma íslenskri tónlist á framfæri á erlendum mörkuðum. Við förum að því meðal annars með lagalistunum okkar. Iceland Music á Spotify er með 15 lagalista sem spanna helstu tegundir tónlistar sem gefin er út hér á landi og telja fylgjendur þeirra nú samanlagt yfir 35.000.

Markmið okkar er alltaf að fá meiri athygli fyrir íslenskt tónlistarfólk almennt og því er umsjón og kynning lagalistanna mjög mikilvægt tól. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir mikilvægi þess fyrir tónlistarfólk að fá góða spilun á streymisveitum og því leggjum við metnað okkar í það að byggja upp sterkan fylgjendahóp til að gera það sem verðmætast fyrir tónlistarfólk að komast inn á lagalistana okkar.


Markmið okkar er því tvíþætt:

1. Að búa til heillandi lagalista sem tónlistarunnendur falla fyrir og hlusta á aftur og aftur

2. Gefa íslensku tónlistarfólki tækifæri til að koma lögum sínum inn á lagalista

Af því tilefni útlistum við hér hvernig valið er inn á lagalista Iceland Music og hvetjum við öll þau sem gefa út tónlist hér á landi að senda okkur tónlistina sína um leið og hún er komin út á Spotify.

Svona gengur ferlið fyrir sig:

1. Sendu lögin þín til okkar

Við hvetjum allt íslenskt tónlistarfólk til að senda útgáfurnar sínar, daginn sem þær koma út, á playlists@icelandmusic.is. Sendu slóð á Spotify link!

2. Ný lög fara á Iceland Music New Releases

Öll ný lög fara á lagalistann New From Iceland svo lengi sem útgáfan er ný. Við hvetjum ykkur jafnframt til að senda okkur hlekki á samfélagsmiðlana ykkar ef lag ykkar er valið til frekari deilingar á samfélagsmiðlum.

Þið ættuð að sjá í Spotify for Artists þegar lag kemst á lagalista hjá okkur. Við hvetjum ykkur eindregið til að deila lagalistanum á ykkar eigin samfélagsmiðlum þar sem það styður við vöxt lagalistans og þar með aukast spilanir á þínu lagi. Við viljum skapa skemmtilega „New Music Friday“-stemningu í íslensku tónlistarsenunni þar sem við deilum okkar lagalistum og lögum sem við fáum send en jafnframt deilum við öðru efni til að draga enn frekar athygli að hversu lifandi tónlistargeirinn er hér á landi.

3. Lagalistar sem fólk fellur fyrir

Til að laða að okkur alþjóðlega hlustendur er mikilvægt að hafa gott jafnvægi á milli laga frá þekktu tónlistarfólki í bland við nýjar útgáfur. Við höfum til hliðsjónar gengi á vinsældarlistum, spilunartölur og hvort listafólkið sé „export ready’.

Það skiptir líka máli að búa til stemningu á listanum svo að það sé ánægjulegt að hlusta á listann í gegn, við höfum það líka í huga að lög passi vel saman. 

Þetta þýðir að Tónlistarmiðstöð hefur frelsi til að taka ákvarðanir er koma að því í hvaða röð lögin birtast á listanum og hve lengi hvert lag er á hverjum lista. Það er ekki hægt að ganga út frá því að hafi lag birst á lista hjá okkur þá muni það haldast þar eða halda staðsetningu sinni á listanum. Við viljum ítreka að vegna fjölda laga sem við fáum send þá eru lagalistarnir uppfærðir vikulega og því er lögum reglulega skipt út.

deila laginu ykkar áfram á samfélagsmiðlum, deila lagalistanum og tagga @icelandmusic.

4. Hvernig er valið?

Tónlistarmiðstöðvar-teymið hittist vikulega á lagalista fundi þar sem farið er yfir aðsendar nýjar útgáfur og við gerum okkar allra besta til að koma hverju lagi á viðeigandi lista. Við erum jafnframt með mánaðarlegar yfirferðir þar sem við lítum á lagalistana í heild sinni til að sjá hvort að flæðið í þeim sé enn þá spennandi. Í hverri viku veljum við einn lagalista til að kynna á samfélagsmiðlum og einu sinni í mánuði er valinn lagalisti mánaðarins sem kynntur er í fréttabréfi og víðar á miðlum Iceland Music.

Að lokum viljum við hvetja ykkur til að halda áfram að gefa út frábæra tónlist - án hennar værum við ekki hér :-)

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar