
Ástsæli laga- og textahöfundurinn Magnús Eiríksson er látinn 80 ára að aldri.
Magnús var með merkustu og afkastamestu tónlistarmönnum landsins og eru lög hans órjúfanlegur hluti íslenskrar þjóðarsálar og menningararfs. Ferill Magnúsar spannar allt frá árdögum blúsvakningarinnar á Íslandi en hann skaust fram á sjónarsviðið á áttunda áratugnum með Brunaliðinu og Mannakornum. Hann vann lengi náið með Pálma Gunnarssyni, KK og fjölmörgum öðrum listamönnum og eftir hann liggja ótal perlur, t.d. Einhvers staðar einhvern tímann aftur, Gleðibankinn, Ég er á leiðinni, Einskonar ást, Þorparinn, Draumaprinsinn og svo mætti lengi telja.
Magnús var einn af stofnendum Félags tónskálda og textahöfunda og var formaður STEF um árabil. Hann hlaut fjöldan allan af viðurkenningum fyrir starf sitt í þágu íslenskrar menningar þar á meðal fálkaorðuna, heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og Þakkarorðu íslenskrar tónlistar á Degi íslenskrar tónlistar árið 2024.
Við sendum fjölskyldu og aðstandendum samúðarkveðjur.